Fleiri banaslys vegna sms sendinga en ölvunaraksturs

AFP
Samkvæmt nýrri rannsókn á vegum Cohen barnaspítalans í New York látast fleiri ungmenni í banaslysum í umferðinni vegna sms sendinga undir stýri en vegna ölvunaraksturs.
Talið er að 3000 ungmenni látist í umferðarslysum á hverju ári í Bandaríkjunum vegna þess að þau eru að senda sms undir stýri. Til samanburðar látast 2.800 vegna ölvunaraksturs. Þá slasast að meðaltali 300 þúsund ungmenni þegar þau senda sms en 282 þúsund slasast vegna ölvunaraksturs.
Ástæðan ku ekki vera sú að hættulegra sé að senda sms undir stýri, heldur gera ungmennin það mun oftar en þau eru drukkin við akstur. Þó rannsóknin hafi aðeins náð til ungmenna má ætla að hún nái jafnframt til þeirra sem eldri eru. Nýleg rannsókn sýnir að nær helmingur ökumanna sendir sms á meðan þeir eru á akstri og er það enn algengara heldur en tíðkast á meðal ungmenna.